AXIS 90 ára

Á þessu ári fagnar AXIS 90 ára afmæli sínu. Fyrirtækið er enn rekið af sömu fjölskyldu, þremur kynslóðum síðar.

Saga fyrirtækisins hófst árið 1935 þegar Axel Eyjólfsson stofnaði smíðaverkstæði á Akranesi. Axel var frumkvöðull í íslenskri húsgagnasmíði, framsýnn og metnaðarfullur maður sem lagði grunn að fyrirtæki sem hefur staðið af sér hagsveiflur, sem gjarnan eru ýktar í þeim geira sem fyrirtækið starfar í. Það er því ekki sjálfsagt að fyrirtæki lifi svo lengi í erfiðu umhverfi og sýnir um leið framsýni, frumkvæði og ákveðna seiglu.

Síðar tók sonur hans, Eyjólfur Axelsson, við rekstrinum og leiddi hann með framtakssemi og áherslu á nýsköpun og tækniþróun. Árið 2006 tóku Eyjólfur og Gunnar Eyjólfssynir við rekstrinum og hafa síðan byggt áfram á traustum grunni fyrri kynslóða, með sömu gildi, metnað og ástríðu fyrir vandaðri framleiðslu.

Lykillinn felst í frábæru starfsfólki fyrr og nú, góðum viðskiptavinum auk velunnarra víða í samfélaginu. Auðvitað hafa stjórnendurnir, sér í lagi þeir sem lögðu línurnar fyrir þá sem á eftir koma, sýnt framsýni og gott fordæmi í sínum störfum. Fyrirtækið hefur haft lag á að aðlagast breyttum tímum og þörfum viðskiptavina.

AXIS hefur sjaldan staðið sterkara og við hlökkum til að fagna 100 ára afmælinu.

Hér má sjá myndband með svipmyndum úr 90 ára sögu AXIS.