Saga AXIS

AXIS var stofnað á Akranesi árið 1935 af Axel Eyjólfssyni. Hann var fyrstur í röð þeirra þriggja kynslóða sem að rekstrinum hafa komið og var hann frumkvöðull í íslenskum húsgagna- og innréttingaiðnaði. Eftir stríðsárin hóf Axel framleiðslu fataskápa og var fyrstur til að hefja framleiðslu á stöðluðum fataskápum hér á landi. Þar með var framtíð þessa fyrirtækis mörkuð, enda hefur sú framleiðsla verið kjölfesta starfseminnar allt fram á þennan dag. Framleiðsla fyrirtækisins í dag er þó fjölbreyttari en áður var. Árið 1947 var starfsemin flutt frá Akranesi, í Selásinn í Reykjavík. Eftir bruna þar árið 1949 flutti fyrirtækið í Skipholt í Reykjavík.

Árið 1973 var hafist handa við byggingu núverandi húsnæðis AXIS við Smiðjuveg í Kópavogi þar sem fyrirtækið hefur verið allar götur síðan. Fjöldaframleiðsla AXIS á fataskápum hófst árið 1974 og voru það viðbrögð fyrirtækisins við breyttu viðskiptaumhverfi eftir inngöngu Íslands í EFTA árið 1970. Á þeim tímapunkti voru tollar felldir niður á húsgögnum og nýtískuleg fjöldaframleiðslutæki urðu grunnurinn að AXIS eins og fyrirtækið er í dag.

AXIS hf fór í útflutning á árunum í kringum 1982 sem stóð yfir í um átta til níu ár. Um var að ræða skandinavíska hönnum sem seld var m.a. í Harrods í London og Heal´s og víða í bandaríkjunum en fyrst hafði framleiðslan verið kynnt á Bella Center í Danmörku. Þetta var orðið um 40% af framleiðslu fyrirtækisins á þeim tíma. Ýmislegt kom upp á og stöðuleika vantaði í umhverfið. Gerður var tveggja ára samningur við umboðsaðila í bandaríkjunum á föstum verðum í kringum árið 1984. Á svipuðum tíma var ráðist í byggingu á flugstöð á Íslandi og Kringluna, en á þeim tíma hækkuðu laun smiða töluvert. Langtímasamningar, tveggja ára samningar með framlengingarskilmálum urðu óhagkvæmir. Gengisbreytingar urðu óhagkvæmar og 1/3 umboðsmannanna í USA fóru á hausinn vegna samdráttar í kringum árið 1990 sem varð til þess að útflutningi AXIS var hætt.

Í dag er AXIS í eigu þriðja ættliðs sömu fjölskyldu eftir að bræðurnir Eyjólfur og Gunnar Eyjólfssynir keyptu fyrirtækið árið 2006. Starfsmenn eru um 29 talsins og fyrirtækið hefur aðsetur í um 4.300 m² húsnæði í Kópavogi, þar sem öll framleiðsla og sala fer fram undir einu þaki. AXIS framleiðir innréttingar, fataskápa og skrifstofuhúsgögn.

AXIS keypti nafn, vélar og lager Sökkuls ehf. árið 2010, auk þess að lykilstarfsmenn þess voru ráðnir til að sinna þeim verkefnum sem Sökkull hafði um árabil verið með. Fyrirtækið var sameinað rekstri AXIS sem býður nú einnig lausnir í kerfisveggjum, felliveggjum o.fl.