Jafnréttis- og jafnlaunastefna

Jafnréttis- og jafnlaunastefnu AXIS er ætlað að stuðla að jafnrétti alls starfsfólks, þar með talið að greidd séu sambærileg laun fyrir jafnverðmæt störf.

Markmið jafnréttis- og jafnlaunastefnu, sem og jafnréttisáætlunar AXIS er að tryggja sambærileg réttindi, aðstöðu og tækifæri starfsfólks AXIS óháð kyni, trú, þjóðerni, kynþætti, fötlun, kynhneigð eða stjórnmálaskoðunum og koma í veg fyrir mismunun eða áreitni á grundvelli þessara þátta. Stjórnendur hjá AXIS bera ábyrgð á að tryggja virka stjórnun sem stuðlar að stöðugum umbótum.

Jafnréttisstefna AXIS byggir á þeirri grundvallarhugsun að allir starfsmenn njóti jafnréttis, óháð kyni, uppruna eða trú. Stefnunni er þannig ætlað að stuðla að jafnrétti allra starfsmanna AXIS, þar með talið að greidd séu sambærileg laun fyrir jafnverðmæt störf. Þannig uppfyllir AXIS allar lagalegar skuldbindingar um jafnrétti sem og aðrar kröfur sem lúta að sama efni.

Stjórnendum ber að vinna markvisst gegn atferli eða viðhorfum, sem gætu leitt til mismununar starfsmanna.

Ákvarðanir um laun og kjör skulu teknar með hlutlægum og sambærilegum hætti fyrir alla starfsmenn. AXIS leggur jafnframt áherslu á að allir starfsmenn fyrirtækisins, óháð kyni eða öðrum ómálefnalegum þáttum, hafi sömu tækifæri til starfsþróunar.

Komi í ljós kynbundinn munur meðal starfsmanna í launum eða möguleikum þeirra varðandi stuðning í starfi, þjálfun eða sí- og endurmenntun og/eða nýtingu slíkra möguleika, ber tafarlaust að grípa til aðgerða til úrbóta.

Sérstaklega skal gætt að jafnréttismálum við ráðningar hjá AXIS og skulu auglýsingar um laus störf almennt þannig úr garði gerðar að þær höfði til einstaklinga óháð kyni.

AXIS telur mikilvægt að gott jafnvægi ríki á milli vinnu og einkalífs starfsfólks og er ávallt reynt að koma til móts við þarfir starfsmanna vegna fjölskylduaðstæðna hverju sinni. Boðið er upp á sveigjanlegan vinnutíma, hlutastörf eða aðra vinnuhagræðingu sem við verður komið hverju sinni.

Starfsfólk AXIS skal ávallt koma fram hvert við annað af virðingu. Hverskyns óæskileg hegðun, svo sem einelti, kynferðisleg eða kynbundin áreitni og kynbundið ofbeldi, er ekki liðin.

Stefna þessi var samþykkt af stjórn AXIS í júlí 2023 og gildir í 3 ár frá samþykktardegi.

Stefnan hefur verið kynnt starfsfólki og er öllum aðgengileg á axis.is