fbpx

FERLIÐ

Þegar kemur að því að velja sér eldhúsinnréttingu er vissara að vanda til verka. Huga þarf að útliti og notagildi auk þess að laga innréttinguna að aðstæðum hverju sinni. Við hjá AXIS höfum áratugareynslu af því að hanna og smíða eldhúsinnréttingar.

Gera þarf ráð fyrir eftirfarandi atriðum við kaup á eldhúsinnréttingu.

  • Heimavinnan. Áður en haldið er af stað í það að kaupa eldhúsinnréttingu er æskilegt að setja niður fyrir sér hverjar þarfirnar eru. Sölumenn hjálpa að sjálfsögðu við þetta þegar að því kemur en það skiptir miklu fyrir viðskiptavininn að hafa einhverjar skoðanir á því hvernig innréttingin eigi að vera.
 
  • Gögn. Afla þarf nauðsynlegra gagna svo unnt sé að hanna innréttinguna af nákvæmni. Það sem skiptir mestu máli er að hafa grunnmynd af eldhúsinu, málsetta eða í kvarða. Auk málsetningar, þarf að koma fram staðsetning á gluggum, hurðum, vatnslögnum og rafmagni. Lofthæð þarf jafnframt að liggja fyrir. Teikningar af íbúðarhúsnæði má nálgast hjá byggingarfulltrúa viðkomandi sveitarfélags en einnig getur fólk mælt upp og teiknað rýmið sjálft.
 
  • Fundur með sölufulltrúa. Á fundi með sölufulltrúa hjá AXIS er byrjað á að fara yfir þær hugmyndir sem viðskiptavinurinn er með um eldhúsið. Með hjálp þeirra gagna sem viðskiptavinur leggur fram t.d. teikningu af eldhúsi, er mögulegt að fara yfir útfærsluatriði, óskir viðskiptavinar og hvaða möguleikar eru í boði hjá AXIS. Viðskiptavinur getur fengið áætlað verð eða tilboð þegar fyrir liggur hvernig eldhúsinnréttingu er um að ræða.
 
  • Þrívíddarteikningar. Við hjá AXIS notum teikniforritið Winner til að teikna innréttingar í þrívídd. Forrit þetta gefur ítarlegri hugmyndir um útlit auk þess sem sjá má innréttinguna frá mismunandi sjónarhornum. Ef viðskiptavinur kýs að láta teikna fyrir sig í þrívídd greiðir hann fyrir það kr. 24.980,– þar sem talsverð vinna liggur í slíkum teikningum en verðið gengur upp í verð innréttingar sé hún keypt hjá AXIS.
 
  • Pöntun staðfest. Þegar viðskiptavinur hefur fengið innréttinguna útfærða á þann hátt sem hann kýs er komið að því að setja hana í framleiðslu. Jafnvel þótt AXIS framleiði mjög mikið af einingum á lager, er einhver sérsmíði í flestum innréttingum. Pöntun er staðfest og útfærsla samþykkt með innborgun. Smíðavinna er ekki sett af stað í verksmiðju fyrr en innborgun hefur átt sér stað. Töf á innborgun getur því valdið töf á afhendingu.
 
  • Afhending. Allar innréttingar frá AXIS eru afhentar við lagerdyr. Viðskiptavinir geta sótt innréttingar eða fengið þær sendar með sendiferðabifreið sem greidd er við móttöku af viðskiptavini. Afhendingartími er venjulega gefinn upp í ákveðinni viku og viðskiptavinir fá tilkynningu (SMS) frá AXIS þegar innrétting er tilbúin til afhendingar.
 
  • Uppsetning. AXIS er með fagmenn í uppsetningum á sínum snærum og getur vísað á þá. Almennt eru þó samskipti uppsetningamanna og viðskiptavina bein þar sem uppsetningamennirnir starfa sjálfstætt og eru ekki starfsmenn AXIS. Við leggjum áherslu á að uppsetning á eldhúsinnréttingu er vandasöm. Þess vegna ráðleggjum við að velja til verksins fagmenn og ef þeir þekkja ekki eldhúsin okkar finnst okkur mikilvægt að þeir líti við í AXIS og fari yfir útfærslurnar okkar þannig að verkið gangi sem best.
 
  • Ábyrgð. Á Íslandi gildir sú regla að borin er ábyrgð á göllum vöru (í neytendakaupum) í 2 ár. Innréttingarnar frá AXIS eru framleiddar úr besta hráefni sem völ er á. Þess vegna lýsum við því yfir að AXIS ber 5 ára ábyrgð á sínum innréttingum. Ábyrgðin er þá háð þeim skilyrðum, að innréttingin sé sett upp af fagmennsku. Mikilvægir þættir í því eru; tryggar festingar í vegg, kíttun meðfram borðplötum og inn í vaskaskápum o.fl.  Að sjálfsögðu er ekki borin ábyrgð á tjónum sem stafa af atvikum sem AXIS hefur ekki vald yfir, s.s. vatnstjón, rakatjón, hurðum ýtt yfir mögulega opnun og hvers konar meðferð sem telja má óeðlilega.