AXIS húsgögn og MótX hafa átt í farsælu og gæfuríku samstarfi frá árinu 2011. MótX hefur valið innréttingar frá AXIS í öll sín fjölbýlishúsaverkefni og standast innréttingar frá AXIS úttektir í Svansvottuðum verkefnum. Starfsfólk AXIS er stolt af sinni íslensku hönnun og framleiðslu.
Nú hefur MótX fengið Svansvottun á 36 íbúða nýbyggingu við Hringhamar 9-11 í Hafnarfirði. MótX er byggingafélag sem leggur mikinn metnað og vandvirkni í allar sínar framkvæmdir. Félagið ákvað við upphaf framkvæmda við Hringhamar að byggingin stæðist skilyrði Svansvottunar enda hefur MótX verið á þeirri braut að byggja sínar byggingar með umhverfisvænum hætti frá árinu 2019.
Allt byggingaferlið hjá MótX tekur mið af umhverfis- og orkusparandi lausnum. Húsin eru byggð með það í huga að vera viðhaldslítil og allt byggingarefni sem umhverfisvænast. Loftræstikerfi er fyrir hverja íbúð og blágrænar umhverfislausnir við frágang lóða og umhverfis, svo fátt eitt sé nefnt.
Um er að ræða fyrsta áfanga af þremur í byggingaverkefni MótX í Hamranesi sem telur alls 164 íbúðir við Hringhamar 9-19 og Hringhamar 31-33 í Hafnarfirði en framkvæmdum lýkur vorið 2025. MótX tók við viðurkenningunni á byggingarstað við Hringhamar að viðstöddum gestum þann 14. ágúst 2024.
Svanurinn er opinbert umhverfismerki Norðurlandanna og meginmarkmið Svansins er að draga úr umhverfisáhrifum af vörum eða þjónustu og auðvelda neytendum að velja umhverfisvænni kosti.