Hönd fylgir huga

Dagana 17. og 18. maí 2014 var haldin útskriftarsýning í Perlunni á vegum nemenda á Listnámsbraut Fjölbrautaskólans í Breiðholti. Nemendur sem eru um 40 talsins sýndu verkefni af fjölbreyttum toga innan myndlistar, grafískrar hönnunar og rýmishönnunar.

Jóna Guðrún Kristinsdóttir og Vilborg Vala Sigurjónsdóttir eru upprennandi hönnuðir sem unnu lokaverkefni sín hjá AXIS húsgögnum. Annars vegar er um að ræða borð með glerplötu sem hægt er að setja saman á marga vegu og hins vegar box/hirslu og eða skilrúm sem hægt er að stafla upp. Borðið sem Jóna Guðrún hannaði nefnist Cartwheel og hönnun Vilborgar Völu nefnist Jaxlar.

Samstarf Fjölbrautaskólans í Breiðholti og AXIS húsgagna ber heitið „Hönd fylgir huga“ en um er að ræða tilraunakennslu sem styrkt er af Mennta- og menningarmálaráðuneytinu sem hluti af átakinu „Nám er vinnandi vegur“. Markmið þess er að styðja undir þróun á námi sem nýtist ungu fólki í starfsþjálfun hjá fyrirtækjum eða stofnunum.

Hugrún Þorsteinsdóttir arkitekt og kennari við Listnámsbraut Fjölbrautaskólans í Breiðholti er fulltrúi skólans í samstarfinu við AXIS, þar sem verkefninu er ætlað að tengja saman hönnunarrými og smíði. Markmiðið er að nemendur þekki “hina hliðina” þ.e. hönnuðir þekki smíðina og smiðir þekki hönnunina. Ekki er vitað til þess að þetta hafi verið gert áður. Þó er þekkt að smiðir hafi farið í hönnunarnám en hér er þetta tekið inn í nám á framhaldsskólastigi sem undirbúningur fyrir frekara nám á háskólastigi.

Samstarfsverkefni sem þetta er góður vettvangur til að styrkja tengsl atvinnulífsins við framhaldsskólana. AXIS er umhugað að auka gæði í innlendri húsgagnaframleiðslu þar sem hugvit og framleiðsla þarf að vinna vel saman. Með því að hlúa að upprennandi hönnuðum er meðal annars aukið við verkþekkingu og efnislæsi upprennnandi hönnuða auk þess sem gagnkvæmur skilningur er byggður upp á milli hönnuða og iðnfyrtækja.

Á myndunum hér fyrir neðan, má sjá Jónu Guðrúnu Kristinsdóttur og Vilborgu Völu Sigurjónsdóttur við lokaverkefni sín á útskriftarsýningu Listnámsbrautar Fjölbrautaskólans í Breiðholti sem haldin var í Perlunni.

Hér fyrir neðan má svo sjá myndir af öðrum verkum sem sýnd voru á útskriftarsýningunni í Perlunni.

Myndir frá framleiðslustigi Cartwheel í verksmiðju AXIS ásamt kynningu Jónu Guðrúnar hönnuðar verksins má sjá á myndunum hér fyrir neðan.

Hér má svo kynningu og myndir Vilborgar Völu sem hannaði Jaxla.