Listskreyting innréttinga

Hjúkrunarheimili í Fjarðabyggð

Framkvæmdir við Hjúkrunarheimili á Eskifirði í Fjarðabyggð hófust í janúar 2012 og lýkur í sumar. Um er að ræða 20 litlar, heimilislegar einingar þar sem er rúmgott einkarými er fyrir hvern og einn en jafnframt sameiginlegt rými fyrir íbúa og starfsfólk hverrar einingar með eldunaraðstöðu, borðstofu og dagstofu. Lóð hjúkrunarheimilisins er hönnuð með sérþarfir aldraðra og hreyfihamlaðra í huga og verður hin glæsilegasta í alla staði auk þess sem hún mun setja mikinn svip á innkeyrsluna í Eskifjörð. Allar fastar innréttingar og innihurðir í Hjúkrunarheimilið á Eskifirði eru frá AXIS húsgögnum.

Listskreyting við Hjúkrunarheimilið á Eskifirði

Haldin var lokuð samkeppni um listskreytingu við Hjúkrunarheimilið á Eskifirði, þar sem dómnefnd valdi tillögu Guðrúnar Kristjánsdóttur. Tillaga Guðrúnar byggir á útlínum fjalla sem málaðar eru á við svo æðar viðarins sjást í gegn. Málað er á felliveggi sem smíðaðir eru af AXIS húsgögnum.

Guðrún Kristjánsdóttir hefur unnið að myndlist í yfir tuttugu ár og sýnt víða í Evrópu, Ameríku og í Asíu. Hún hefur með verkum sínum náð að skapa sérstaka sýn á náttúruna sem hún miðlar í málverkum sínum, prent- og vídeóverkum auk stórra veggmynda og innsetninga. Hún hefur leitast við að höndla hreyfingu og hringrás síkvikrar náttúrunnar þar sem kyrr augnabliksmynstur og flæði umhleypinga togast á.

Á síðustu árum hefur Guðrún unnið stórar innsetningar í Kína m.a. verkið Múrinn sem er varanlegt útilistaverk í gömlu hverfi rétt við miðborg Peking. Verkið er 48 m2 að stærð, málað á vegg með ösku og glersalla.

Nánari upplýsingar um Guðrúnu og verk hennar má finna á á heimasíðu hennar: gudrun.is